Erlent

Hörð átök á Norðurbrú

Fólk ætlaði sér greinilega ekki að láta lögregluna taka Ungdómshúsið átakalaust.
Fólk ætlaði sér greinilega ekki að láta lögregluna taka Ungdómshúsið átakalaust. MYND/Teitur

Allt logaði í átökum í Kaupmannahöfn í gær eftir að lögreglan hóf að rýma Ungdómshúsið á Norðurbrú, sem áratugum saman hefur verið vinsæll samkomustaður unga fólksins í Kaupmannahöfn.

Þúsundir manna mótmæltu rýmingu hússins, köstuðu múrsteinum og öðru lauslegu í lögregluna og héldu mótmælin áfram allt fram á kvöld víða um borgina, einkum þó á Norðurbrú. Mikill mannfjöldi hafði safnast saman á Nørrebrogade síðdegis og víða voru götubardagar þar sem lögreglan beitti meðal annars táragasi. Seint í gærkvöld var síðan boðað til mótmælafundar á Ráðhústorginu og var lögreglan viðbúin átökum þar.

Í Svíþjóð efndi ungt fólk einnig til mótmælafunda í gær, meðal annars í Stokkhólmi og Gautaborg, til þess að lýsa stuðningi við félaga sína í Danmörku.

Meira en hundrað manns höfðu verið handteknir í Kaupmannahöfn síðdegis í gær og þrír höfðu þurft að fá læknisaðstoð, þar á meðal þýskur ríkisborgari á þrítugsaldri sem var barinn í höfuðið og fluttur á sjúkrahús.

Hópur manna var í húsinu þegar hryðjuverkavarnadeild lögreglunnar mætti á staðinn stuttu fyrir klukkan sjö í gærmorgun. Nokkrir lögreglumenn sigu niður úr þyrlum og aðrir byrjuðu á því að sprauta vatni með háþrýsti­slöngum á mannfjöldann sem safnaðist að húsinu.

Verslanir og fyrirtæki í næsta nágrenni við húsið höfðu varann á og voru spjöld víða negld fyrir glugga.

Ungdomshuset, eða Ungeren, var upphaflega reist sem alþýðuhús í lok 19. aldar en hafði staðið ónotað í nokkra áratugi þegar borgaryfirvöld ákváðu árið 1982 að afhenda húsið ungu fólki til afnota.

Fyrir sex árum var húsið hins vegar selt fríkirkjusöfnuði í Kaupmannahöfn, sem síðan hefur barist fyrir því að fá húsið rýmt. Unga fólkið vildi þó ekki yfirgefa það fyrr en annað sambærilegt hús hefði fengist í staðinn á sömu slóðum.

Á síðasta ári voru síðan felldir tveir dómsúrskurðir í þessu deilumáli og var unga fólkinu gert að rýma húsið ekki síðar en 16. desember síðastliðinn. Sá frestur leið án þess að nokkuð gerðist fyrr en í gær, þegar lögreglan sendi hryðjuverkavarnadeild sína á vettvang til að rýma húsið.

Kaupendurnir reiknuðu með því að fá aðgang að húsinu strax í gær til þess að meta ástand þess, að því er fram kemur í dagblaðinu Politiken, en gátu ekki svarað því hvernig húsið yrði nýtt.

Lögreglan í Kaupmannahöfn vill hins vegar, samkvæmt Jótlandspóstinum, að húsið verði jafnað við jörðu sem allra fyrst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×