Innlent

Fjögur nauðgunarmál frá áramótum

Óvenju mörg kynferðisafbrotamál hafa komið upp á Norðurlandi síðustu vikur, að sögn Daníels Guðjónssonar yfirlögregluþjóns á Akureyri. Nú um helgina kom upp mál á skemmtistað á Akureyri þar sem grunur leikur á að konu um tvítugt hafi verið nauðgað á salerni.

2-3 nauðganir aðrar eru til skoðunar frá áramótum, í einu tilviki ræðir um nauðgun á barni undir 14 ára aldri. Daníel segir dæmi um enn fleiri kynferðisbrot, þar á meðal misneytingu. Misneyting telst sem dæmi þegar samræði er haft við einstakling sem misst hefur meðvitund vegna ölvunar eða lyfja og getur ekki veitt mótspyrnu.

Um áramót var umdæmi lögreglunnar á Akureyri stækkað til norðurs og heyra nú Ólafsfjörður og Siglufjörður undir embættið. Kynferðisafbrotin komu ekki öll upp á Akureyri heldur áttu þau sér stað bæði innan Eyjafjarðar og utan. Yfirlögregluþjóninn á Akureyri segir að mikið annríki hafi verið undanfarið og telur hann brýnt að fjölga í liðinu.

Í fyrra komu tvöfalt fleiri einstaklingar á neyðarmóttöku Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri en árið á undan en ekki er þó samhengi milli fjölda mála og þeirra sem fara alla leið fyrir dómstóla. Sönnunarbyrðin reynist þung á köflum og eru kynferðisbrotamál mál viðkvæm og erfið hlutaðeigandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×