Innlent

Fingur skarst af átta ára stúlku í sundi

Átta ára stúlka gekkst í gærkvöldi undir margra klukkustunda aðgerð þar sem reynt var að festa á hana fingur sem skarst af þegar hún flækti sig í vír við sundlaugarbakka í Laugardalslauginni.

Stúlkan var að leik í sundlauginni síðdegis í gær ásamt vinum sínum og tveimur fullorðnum. Þegar hún ætlaði að fara upp úr sundlauginni greip hún um vír sem var við sundlaugarbakkann. Hún flækti fingurinn í vírnum og datt en við það skarst fingurinn af henni.

Stúlkan var flutt á Landspítalann í Fossvogi þar sem hún gekkst í gærkvöldi og fram á nótt undir átta klukkustunda aðgerð þar sem reynt var að festa fingurinn á höndina. Aðgerðin var bæði löng og erfið en aðgerðir sem þessar eru fátíðar hér á landi. Óvíst er hvort stúlkan haldi fingrinum og kemur það ekki í ljós fyrr en á næstu dögum. Um vísifingur hægri handar er að ræða.

Lögregla var kölluð á staðinn í gær en þar sem skýrslu hefur ekki verið lokið reyndist erfitt að fá upplýsingar um málið í dag. Lögreglan mun venju samkvæmt bæði tilkynna heilbrigðiseftirlitinu og Barnaverndaryfirvöldum um slysið.

Í samtali við fréttastofu í dag sagðist móðir stúlkunnar ekki skilja af hverju vírinn hefði verið við sundlaugarbakkann en hann hefði verið klipptur niður af starfsmönnum strax eftir slysið.

Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir náðist ekki í forstöðumann Laugardalslaugarinnar í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×