Innlent

Stóriðjuframkvæmdir verða stöðvaðar

Steingrímur J. var í góðum gír á landsfundi Vinstri grænna.
Steingrímur J. var í góðum gír á landsfundi Vinstri grænna. MYND/Anton Brink

Vinstri græn vanda ekki ríkisstjórninni kveðjurnar í landsfundarályktun sinni. Talað er um valdahroka og ólýðræðisleg vinnubrögð hennar og að hún hafi ráðists í miklar virkjunarframkvæmdir með geigvænlegum afleiðingum fyrir íslenska náttúru og efnahagslíf, til þess að selja raforku á útsöluverði til erlendra álhringa. Vinstri græn boða betri tíð ef þau komast í ríkisstjórn, og er þar af ýmsu að taka.

Frekari stóriðjuframkvæmdir verða stöðvaðar og náttúrunni þannig gefin grið og atvinnulífinu svigrúm til þess að jafna sig eftir þenslu undanfarinna ára.

Gjaldtöku verður hætt af öllu grunnskólanámi, allt frá leikskólastigi og komugjöld í heilbrigðiskerfinu verða lögð niður. Launamunur kynjanna verður afnuminn, meðal annars með því að veita Jafnréttisstofu auknar heimildir til eftirlits með fyrirtækjum, og umbuna þeim sem reka virka jafnréttisstefnu.

Vinstri græn ætla að byggja upp hátækni- og þekkingargreinar með því að styrkja rannsóknir og nám á háskólastigi um land allt, og efla samkeppnissjóði. Samgöngur verða stórbættar, meðal annars með strandsiglingum. Flokkurinn ætlar að færa þjóðinni Ríkisútvarpið aftur og hlú að gróskumiklu og litríku menningar- og menntalífi.

Í utanríkismálum verður mörkuð friðsamleg stefna sem byggist á nýrri nálgun, lýðræðislegri og friðsamlegri alþjóðasamvinnu og félagslegri alþjóðahyggju. Vinstri græn hafna áframhaldandi þjónkun við hernaðarhyggju, eins og þeirri sem birtist í stuðningi stjórnarflokkanna við stríðið í Írak.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×