Tónlist

Fabúla til Kanada

Tónlistarkonan Fabúla er á leiðinni til Kanada í lok apríl.
Tónlistarkonan Fabúla er á leiðinni til Kanada í lok apríl. MYND/Atli Þór

Tónlistarkonan Fabúla er á leiðinni í tónleikaferðalag til Kanada í lok apríl. Hún mun spila á listahátíð í Winnipeg sem henni var boðið á auk þess sem hún ætlar að halda tónleika í Calgary og hugsanlega í Toronto.

„Þetta verður mjög spennandi. Ég vona að ég geti farið með alla hljómsveitina með mér, ég veit það bara ekki enn þá,“ segir Fabúla, sem heitir réttu nafni Margrét Kristín Sigurðardóttir. Mun hún dvelja í Kanada í tíu daga.

Þetta verður fyrsta tónleikaferð Fabúlu erlendis en í janúar síðastliðnum kom hún fram á Midem-tónlistarráðstefnunni í Cannes í Frakklandi. Þar átti hún í viðræðum við evrópsk plötufyrirtæki og eru góðar líkur á að plötur hennar verði gefnar út í Evrópu á næstunni.

Til að hita upp fyrir Kanadatúrinn heldur Fabúla tónleika á Rós-enberg í kvöld þar sem hún mun spila ný lög í bland við eldri. Með henni spila Jökull Jörgensson, Birkir Rafn Gíslason, Björgvin Ploder og Ingunn Hallgrímsdóttir. Tónleikarnir hefjast klukkan 21.30 og er miðaverð 500 krónur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.