Mús japlaði á sem svarar hundruðum þúsunda íslenskra króna, eftir að hafa skriðið inn í hraðbanka í Eistlandi. Dýrið fannst eftir að viðskiptavinur kvartaði út af músarétnum peningaseðlum í útihraðbanka í höfuðborginni Tallin.
Bankaöryggisdeild rannsakar nú hvernig músinni tókst að komast inn í vélina.
Kristina Tambert talsmaður Hansapank bankans, sem á hraðbankann, sagðist aldrei hafa heyrt um neitt þessu líkt. Hún sagði að músarétnu peningarnir hefðu stíflað bankann um helgina; „Síðan þá virðist dýrið hafa nýtt tímann vel til að tyggja á seðlunum og búa sér híbýli."
Hún telur líklegt að hitinn í vélinni hafi laðað músina að.