Körfubolti

Grindavík jafnaði metin gegn Njarðvík

Grindavík náði að jafna metin gegn Njarðvík í rimmu liðanna í undanúrslitum Iceland Express-deildar karla með því að sigra, 88-81, í viðureign liðanna í kvöld. Frábær fyrri hálfleikur lagði grunninn að sigrinum en Njarðvíkingar komust býsna nálægt því að jafna metin í síðari hálfleik en minnstur varð munurinn þrjú stig.

Grindvíkingar höfðu yfir í hálfleik 56-26, en með frábærri spilamennsku í síðari hálfleik náðu Njarðvíkingar að koma sér inn í leikinn. Þegar 12 sekúndur voru til leiksloka minnkaði Jeb Ivey muninn í þrjú stig, 84-81, en nær komust Njarðvíkingar ekki þrátt fyrir hetjulega baráttu.

“Við erum bestir á Íslandi í að missa niður gott forskot. Við spiluðum illa í seinni hálfleik og ég er bara þakklátur fyrir að hafa náð að klára þetta. Strákarnir voru sterkir á taugum í lokin og það var mikilvægt að jafna metin,” sagði Friðrik Ragnarsson, þjálfari Grindavíkur, í samtali við Sýn eftir leikinn.

“Það er ekkert grín að ætla að hlaupa 30 stig af sér. Hefðum við fengið tvær mínútur í viðbót hefðum við náð þessu,” sagði Einar Árni Jóhannsson, þjálfari Njarðvíkur.

Jonathan Griffin skoraði mest Grindvíkinga eða 21 stig en Adam Darboe var með 20 stig. Hjá Njarðvík skoruðu Igor Beljanski og Jóhann Árni Ólafsson 21 stig hvor.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×