Innlent

Rosa fjör á Króksmóti

Ragnhildur Friðriksdóttir skrifar

Óhætt er að segja að Sauðárkrókur sé iðandi af lífi þessa dagana, en í morgun hófst hið árlega Króksmót fyrir 5., 6., og 7. flokk drengja og stúlkna í fótbolta. Mótið setti Vanda Sigurgeirsdóttir, formaður knattspyrnudeildar Tindstóls, á vel heppnaðri setningarathöfn í morgun, en þetta er 20. Króksmótið sem félagið heldur.

Metþátttaka er á mótinu að þessu sinni, en keppendur eru í kring um eitt þúsund, í rúmlega eitt hundrað liðum víðsvegar af landinu. Troðfullt var á íþróttaleikvangi bæjarins í morgun á setningarathöfninni, þar sem krakkarnir gengu í skrúðgöngu inn á völlinn og Vanda Sigurgeirsdóttir setti mótið við mikinn fögnuð viðstaddra.

Mikil gleði ríkti meðal krakkanna, sem allir voru merktir sínu liði og tilbúin í fjörið, enda er fátt skemmtilegra á þessum aldri en að fara á stórmót sem þetta.

Mótið fór vel af stað og var fótbolti spilaður af fullum krafti til kl. 19:00 í dag, en þá tók við kvöldverður og loks kvöldvaka á íþróttavellinum, þar sem m.a. Björgvin Franz stígur á svið ásamt því sem fjöldinn allur af skemmtilegum atriðum verða í boði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×