Innlent

Vextir áfram háir næstu árin

Þórólfur Matthíasson
Þórólfur Matthíasson

Vextir hér á landi verða að líkindum áfram háir næstu árin, og erfitt að sjá hvernig Seðlabankinn getur lækkað vexti jafnvel þótt atvinnuástandið versni, segir Þórólfur Matthíasson, hagfræðiprófessor við Háskóla Íslands.

Hann segir að upp sé kominn ákveðinn vítahringur. Ef Seðlabankinn lækki stýrivextina megi búast við því að erlendir aðilar sem eiga eignir í krónum selji. Við það lækki gengið og verðbólga aukist, svo eina leið Seðlabankans sé að hækka stýrivextina aftur til að standast verðbólgumarkmiðin.

Hann bendir á að erlendir aðilar sem eiga bréf í íslenskum krónum fjármagni þau með lánum í erlendri mynt þar sem vextir séu mun lægri, og hagnist á vaxtamuninum. Það séu þeir sem græði á háu vaxtastigi hér á landi, á meðan almenningur tapi.

„Það getur vel verið að við verðum í þeirri aðstöðu að þurfa að hafa háa vexti áfram, jafnvel þótt atvinnuástandið versni, bara til þess að halda uppi genginu, og þar með halda verðbólgunni niðri,“ segir Þórólfur. Vel geti verið að það takist að ná vöxtunum niður, en ljóst að það eigi eftir að taka talsverðan tíma.

Þórólfur segir að ein leið út úr vítahringnum sé að taka upp erlenda mynt, til dæmis evruna, hér á landi, þó það geti auðvitað tekið töluverðan tíma, og krefjist líklega inngöngu í Evrópusambandið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×