Kimi Raikkönen saxaði forskot Lewis Hamilton niður um tvö stig í keppni ökuþóra í Formúlu 1 í dag þegar hann vann öruggan sigur á Spa brautinni í Belgíu. Félagi hans Felipe Massa náði öðru sætinu og heimsmeistarinn Fernando Alonso varð þriðji.
Raikkönen leiddi keppni dagsins frá fyrsta hring þar sem þeir Alonso og Hamilton háðu æsilega baráttu um þriðja sætið á fyrsta hringnum, en heimsmeistarinn náði að halda þriðja sætinu og Hamilton varð fjórði.
Raikkönen er nú 13 stigum á eftir Hamilton í keppni ökuþóra og enn eru 30 stig eftir í pottinum. Hamilton hefur 92 stig á heimsmeistaramótinu, Alonso hefur 89, Raikkönen 74 og Felipe Massa hefur 69 stig.
Sigur Raikkönen á Spa í dag var hans þriðji í röð á þessari braut - sem almennt er álitin ein besta kappakstursbraut í heiminum. Raikkönen var aldrei í sérstökum vandræðum með að halda fyrsta sætinu eftir að hafa náð ráspól í gær en McLaren bílarnir áttu engin svör við góðum Ferrari-bílunum í dag.