Innlent

Lögmaður Færeyja fékk ekki þjóðhöfðingjaorðu

Allir þjóðhöfðingjar Norðurlandanna hafa fengið fimmta og æðsta stig hinnar íslensku fálkaorðu - stórkross með keðju. Lögmaður Færeyja er ekki í þeim hópi.

Joannes Eidesgaard lögmaður Færeyja var í gær sæmdur stórriddarrakrossi með stjörnu af forseta Íslands, Ólafi Ragnari Grímssyni. Í því fólust engin skilaboð um afstöðu íslenska ríkisins til stöðu Færeyja í alþjóðasamfélaginu því í forsetabréfi um fálkaorðuna segir að ef:

"...erlendum þjóðhöfðingjum eða forsætisráðherrum er veitt fálkaorðan skulu þeir jafnan hljóta fjórða stig hennar, stórkrossinn..."

Það fékk Joannes hins vegar ekki - heldur þriðja stigið. Fálkaorðan skiptist í fimm stig. Fyrsta er riddarakrossinn - sem flestir fá. Annað stigið er stórriddarakross, þriðja er stórriddarakross með stjörnu - eins og lögmaður Færeyja fékk í gær. Fjórða stigið er stórkross. Æðsta stigið er svo keðja ásamt stórkrossstjörnu, sem aðeins þjóðhöfðingjar bera, og ævinlega þjóðhöfðingi Íslands.

En auk þess hafa allir þjóðhöfðingjar Norðurlandanna, Danmerkur, Noregs, Svíþjóðar og Finnlands hlotið stórkross með keðju. Þar á meðal að sjálfsögðu Margrét Þórhildur danadrottning - og æðsti þjóðhöfðingi Færeyinga, fyrir einum 34 árum.

Fólk af ýmsu tagi hefur hins vegar fengið orðuna sem lögmaður Færeyja fékk í gær, sendiherrar Noregs og Þýskalands fengu hana á þessu ári, enginn árið 2006 og árið 2005 fékk hana Geir H. Haarde, þá utanríkisráðherra. Ekki eru þó allir jafn háttsettir sem orðuna hljóta, því fyrir þremur árum fékk til að mynda orðuna - upplýsingafulltrúi sænsku krónprinsessunnar.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×