Fótbolti

Manchester-bullurnar fá fangelsisdóma

NordicPhotos/GettyImages

Útlit er fyrir að stuðningsmenn Manchester United sem handteknir voru í Róm vegna óláta fyrir leik Roma og United í Meistaradeildinni á dögunum þurfi að dúsa í fangelsi fram yfir jól í það minnsta. Þeir voru allir dæmdir í fangelsi í dag.

Stuðningsmennirnir fengu allir fjórir um tveggja og hálfs árs fangelsisdóma fyrir ólæti sín í Róm og á meðan svona málum hafa oft fylgt skilorðsbundnir dómar, er ekki svo í þetta sinn og óttast breska sendiráðið að bresku mennirnir þurfi að dúsa í ítölskum fangelsum. Þeir eru á aldrinum 18-39 ára.

Mennirnir fjórir voru í hópi 60 ólátabelgja sem höfðu skorið sig úr hópi almennra stuðningsmanna liðsins fyrir leikinn í Róm þann 12. desember. Mennirnir lögðu allir leið sína á knæpu sem er þekkt afdrep öfgasinnaðra stuðningsmanna Roma. Slagsmál brutust út þar og var stólum grýtt og glös voru brotin.

Fimm stuðningsmenn United voru stungnir í ólátunum sem brutust út þetta miðvikudagskvöld. Lögregla stöðvaði slagsmál á Pont Duca d´Aosta brúnni í Róm sem er þekktur vígvöllur öfgasinnaðra stuðningsmanna Roma og fylgismanna gestaliðanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×