Innlent

Fréttablaðið með tvær tilnefningar

Þórunn Elísabet Bogadóttir skrifar
fjölmiðlar Fréttablaðið hlaut tvær tilnefningar til Blaðamannaverðlauna Blaðamannafélags Íslands, sem voru gerðar kunnar í gær.

Óli Kristján Ármannsson á Fréttablaðinu, Kristján Már Unnarsson á Stöð 2 og Pétur Blöndal á Morgunblaðinu eru tilnefndir til Blaðamannaverðlauna ársins 2007; Óli Kristján fyrir aðgengileg og upplýsandi skrif um efnahagsmál og viðskipti, Kristján Már fyrir upplýsandi fréttir úr hversdagslífi á landsbyggðinni og Pétur fyrir umfjöllun um REI-málið.

Fyrir rannsóknarblaðamennsku ársins eru tilnefnd Svavar Hávarðsson, Fréttablaðinu, fyrir víðtæk skrif um sjóöryggi á siglingaleiðum, ritstjórn DV fyrir umfjöllun um Breiðavík og önnur vistheimili, og Þóra Tómasdóttir og Sigmar Guðmundsson, Sjónvarpinu, fyrir umfjöllun um drengi sem voru vistaðir í Breiðavík.

Í flokki bestu umfjallana ársins eru Jóhannes Kr. Kristjánsson og Kristinn Hrafnsson, Stöð 2, tilnefndir fyrir umfjöllun Kompáss um byssur á svörtum markaði á Íslandi, ástandið í Írak og heilablóðföll.

Baldur Arnarson, Morgunblaðinu, er tilnefndur fyrir umfjöllun um svifryksmengun, og Kristín Sigurðardóttir, Fréttastofu Útvarps, er tilnefnd fyrir röð frétta um gjaldtöku vegna fit-kostnaðar.

Verðlaunin verða veitt næsta laugardag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×