Innlent

Danskur sérfræðingur kemur í dag til að fanga ísbjörninn

Danskur sérfræðingur sem fanga á ísbjörninn sem sást í gær við bæinn Hraun á Skaga í Skagafirði er væntanlegur til landsins um hálf þrjú í dag. Flogið er með hann og búr sem á að nota undir björninn beint frá Kaupmannahöfn til Akureyrar. Þaðan verður búrinu ekið á Skaga en Landhelgisgæslan mun fljúga með sérfræðinginn þangað. Björninn verður skotinn með deyfilyfi og síðan settur í búrið. Enn er óljóst hvað svo tekur við en reyna á að koma honum til Grænlands. Óvíst er þó hvort það takist þar sem sérfræðingar verða fyrst að skoða dýrið.

Ísbjörninn er enn hinn rólegasti en vel var fylgst með honum í nótt. Stefán Vagn Stefánsson yfirlögregluþjónn á Sauðárkróki sagði í samtali við fréttastofu að björninn hafi verið á vappi undir morgun og fært sig nokkur hundruð metra í vesturátt. Hann er þó enn á Skagatánni og sést vel frá bænum Hrauni.

Ekki hefur verið nein skipuleg leit að öðrum bjarndýrum á svæðinu. Björgunarsveitirnar Strönd og Skagafjarðarsveit fóru hins vegar í skála á svæðinu í gær og könnuðu hvort að einhver hefði orðið var við birni. Svo var ekki. Þyrla frá Landhelgisgæslunni er á Sauðárkróki og verður hún notuð ef björninn fer á stað til að fylgja honum eftir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×