Lewis Hamilton hjá McLaren segist hættur að velta sér upp úr atburðum síðustu helgar þegar hann var sviptur sigrinum á Spa brautinni í Belgíu.
Næsta keppni er strax um helgina á Monza-brautinni á Ítalíu og þar ætlar Bretinn ungi að láta finna fyrir sér.
"Ég tek þetta ekki nærri mér og það er engin ástæða til að fara þarna í hefndarhug. Ég vil ekki vinna keppnir í réttarsalnum, ég vil vinna þær á brautinni," sagði Hamilton í samtali við BBC.
Hamilton þótti hafa stytt sér leið í einni beygjunni á Spa og var dæmdur í 25 sekúndna refsingu sem felldi hann niður í þriðja sæti í keppninni.
"Allir í liðinu eru á þeirri skoðun að við hefðum ekki gert neitt af okkur og við ætlum ekki að gera neitt til að koma okkur í svona aðstöðu það sem eftir lifir keppnistímabilsins," sagði Hamilton.