Innlent

Lögregla náði þjófum eftir æsilega flóttatilraun

Lögregla hafði í nógu að snúast í morgun við að hafa upp á þjófi sem gripinn var glóðvolgur við að ræna skartgripaverslun í miðbænum en flúði lögreglu á fæti og svo með aðstoð félaga síns á flóttabíl.

Um klukkan 08:30 í morgun sást til manns í eftirlitsmyndavélum við Veltusund þar sem hann var að brjóta rúðu í skartgripaverslun þar í götunni.

Lögregla var með mannskap skammt frá og var hann þegar sendur á staðinn. Þegar vettvang var komið var maðurinn sem sést hafði til að setja inn á sig muni úr gluggaútstillingu verslunarinnar.

Lögreglumenn gerðu sig líklega til að handtaka manninn en í sömu mund tók hann á rás.

Lögreglumenn veittu honum eftirför á fæti. Maðurinn hlóp á spretti í átt að Ráðhúsinu, fram hjá Tjarnargötu og inn á Suðurgötu. Þegar lögreglumenn voru svo við það að ná ræningjanum á Suðurgötu stöðvaði skyndilega bíll fyrir ræningjanum og tók hann upp í.

Bílinum var svo ekið upp Suðurgötuna á ofsahraða. Skömmu síðar barst lögreglu ábending um að bílnum hefði verið ekið Suðurgötu á enda, alla leið inn í Skerjafjörð. Lögreglulið var því tafarlaust sent þangað. Þar fannst flóttabíll ræningjanna yfirgefinn en sjálfir fundust þeir skömmu síðar á gangi í skerjafirðinu.

Í fórum þeirra fundust nokkrir munir úr skartgripaversluninni en restin af þýfinu fannst í flóttabifreiðinni.

Mennirnir tveir eru á þrítugsaldri, af erlendum uppruna.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×