Erlent

Pakistönsk kona sökuð um tengsl við al-Qaida

Aafia Siddiqui er grunuð um tengsl við al-Qaida.
Aafia Siddiqui er grunuð um tengsl við al-Qaida.

Pakistönsk kona hefur verið flutt frá Afganistan til Bandaríkjanna þar sem hún á yfir höfði sér ákæru fyrir að reyna að myrða fulltrúa á vegum Bandaríkjastjórnar. Bandarísk yfirvöld segjast hafa handsamað konuna, Afiu Siddiqui, í júlí og saka hana um tengsl við al-Qaida hryðjuverkasamtökin. Segja þeir hana hafa verið í felum í fimm ár.

Þegar menn á vegum hersins og alríkislögreglunnar vitjuðu Siddiqui þar sem hún var í haldi í Afganistan í júlí á henni að hafa tekist að ná byssu og hún reynt að drepa tvo fulltrúanna áður en hún var yfirbuguð.

Siddiqui var um tíma nemandi í MIT-háskólanum í Bandaríkjunum og á þrjú börn. Hún er sögð hafa verið gift frænda Khalids Sheikh Mohammeds, sem sagður er hafa skipulagt árásirnar í Bandaríkjunum 11. september 2001.

Fjölskylda Siddiqui og mannréttindahópar halda því hins vegar fram að bandarísk yfirvöld hafi ekki nýverið handtekið konuna heldur haldið henni fanginni í leynifangelsi í fimm ár. Á blaðamannafundi í Pakistan í dag sagði systir hennar að hún hefði sætt pyntingum í fangelsinu en hún hefði ekki gerst sek um nokkurn skapaðan hlut.

Verði Siddiqui sakfelld fyrir að reyna að myrða fulltrúa Bandaríkjastjórnar gæti hún átt yfir höfði sér allt að 40 ára fangelsisvist.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×