Erlent

Farið þið hundrað sinnum til helvítis

Óli Tynes skrifar
Hugo Chavez forseti Venesúela.
Hugo Chavez forseti Venesúela.

Hugo Chavez forseti Venesúela hefur rekið bandaríska sendiherrann úr landi og gefið honum 72 klukkustundir til þess að hypja sig, eins og forsetinn orðaði það.

Hann hótaði einnig að hætta olíusölu til Bandaríkjanna. Bandaríkjamenn hafa svarað í sömu mynt með því að reka sendiherra Venesúela úr landi.

Chavez talaði enga tæpitungu fremur en venjulega, þegar hann tilkynnti þetta;

„Skíta Ameríkanar. Farið þið hundrað sinnum til helvítis. Við erum hér, börn Bólivars, börn Guacaipuros, börn Tupacamarus, og við erum staðráðin í að vera frjáls. Ég lýsi allri ábyrgð á hendur bandaríkjamönnum á þessu og öllu öðru sem gerist. Þeir standa á bakvið öll samsæri gegn þjóð okkar."

Venesúela er annað Suður-Ameríkuríkið sem rekur bandarískan sendiherra úr landi. Evo Morales forseti Bólivíu sakaði sendiherrann þar í landi um að espa til óeirða og rak hann heim síðastliðinn miðvikudag.

Talsmaður bandaríska utanríkisráðuneytisins sagði í dag að Bandaríkin hörmuðu þetta. Þetta lýsi veikleika og örvæntingu þessara leiðtoga þegar þeir ættu í erfiðleikum heimafyrir.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×