Innlent

Tryggja starfsemi Kolaportsins í Tollhúsinu næstu 10 árin

Gunnar Hákonarson, framkvæmdastjóri Kolaportsins og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri.
Gunnar Hákonarson, framkvæmdastjóri Kolaportsins og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri.

Reykjavíkurborg og fjármálaráðuneytið vilja tryggja framtíðarstaðsetningu Kolaportsins í Tollhúsinu næstu tíu árin með því að breyta fyrirliggjandi hugmyndum um breytingar á Tollhúsinu í Reykjavík. Þetta kemur fram í viljayfirlýsingu sem borgin og fjármálaráðuneytið undirrituðu í dag en um var að ræða eitt síðasta embættisverk Dags B. Eggertssonar sem borgarstjóra.

Í yfirlýsingunni felst að tollurinn geti nýtt bílastæði á efri hæðum hússins en aðstaða Kolaportsins verði jafnframt bætt með nýjum inngöngum á austur og norðurhlið.

Samkvæmt tilkynningu frá Reykjavíkurborg er einnig vilji til þess að efla starfsemi Kolaportsins með því að stækka Tollhúsið í Tryggvagötu en tryggja á að framkvæmdir taki sem stystan tíma og verði lokið eigi síðar en 2010. Þótt hluti hússins verði lokaður vegna framkvæmda tímabundið verði þess gætt að starfsemi Kolaportsins verði að stærstum hluta óraskaður.

Þá verður gerður tíu ára leigusamningur við Reykjavíkurborg sem mun framleigja húsnæðið í Tollstjórahúsinu undir starfsemi Kolaportsins. Reykjavíkurborg á enn fremur að koma að byggingu á rampi fyrir bílastæði og bílastæðatengt rými í Tollhúsinu í Reykjavík.

Þá á bílastæðasjóður Reykjavíkur að úthluta Tollstjóranum í Reykjavík 50 bílastæðum til eigin afnota án endurgjalds og þá verða ekki greidd gatnagerðargjöld fyrir allt að 2.700 rúmmetra vegna framkvæmda við Tollhúsið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×