Menning

Feneyjastjórar ráðnir

Dorothée Kirch og Markús Þór Andrésson brosandi í Feneyjum. Mynd KIA
Dorothée Kirch og Markús Þór Andrésson brosandi í Feneyjum. Mynd KIA

Sýningastjórar hafa verið ráðnir í hinn íslenska skála Feneyjatvíæringsins sem opnaður verður í sumarbyrjun 2009: Þau Dorothée Kirch og Markús Þór Andrésson en Ragnar Kjartansson verður fulltrúi Íslands á sýningunni. Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar fer með framkvæmd þátttökunnar og starfa sýningarstjórarnir náið með listamanninum og Christian Schoen, forstöðumanni Kynningarmiðstöðvarinnar og framkvæmdastjóra verkefnisins.

Íslenski skálinn verður miðsvæðis í Feneyjum, í Palazzo Michiel dal Brusa, í nágrenni við Rialto-brúna.

Markús og Dorothée hafa verið búsett í Berlín undanfarið ár og hafa nokkra reynslu af störfum í hinum alþjóðlega listheimi. Þau hafa oft starfað með Ragnari áður, nýlega að sýningu í Gallery Luhring Augustine í New York. Þeir Markús eru fornvinir úr unglingahljómsveitinni Kósí.

Feneyjatvíæringurinn verður opnaður almenningi 7. júní og stendur yfir til 22. nóvember 2009. Sýning Ragnars verður kynnt fjölmiðlum nánar í apríl 2009. - pbb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×