Innlent

Leggja fram fjárnámskröfu á snekkju Saddams

„Þetta er náttúrulega afar kaldhæðnislegt, en að sumu leyti viðeigandi, því eins og menn vita byggði Saddam veldi sitt að miklu leyti á stuðningi Bandaríkjanna," segir Stefán Pálsson, formaður Samtaka hernaðarandstæðinga.

Honum finnst það ósmekklegt að fley einræðisherrans fyrrverandi liggi við bryggju á Íslandi og jafnvel enn verra að fyrrverandi varaforseti Bandaríkjanna muni dvelja þar.

„Þetta er afar óviðfelldin heimsókn og við munum því efna til mótmæla upp úr hádegi í dag," segir Stefán. Hann segir að þar verði rifjað upp eitt og annað úr ferli Al Gore sem hann segir ekki alsaklausan. „Það var til að mynda í hans varaforsetatíð sem Bandaríkin stóðu fyrir grimmúðlegu viðskiptabanni á Írak með hræðilegum afleiðingum fyrir almenning. Á meðan mökuðu Saddam og hans menn krókinn eins og sést á þessari snekkju," segir Stefán.

Hann segir að samtökin muni leggja fram fjárnámskröfu hjá sýslumanni í dag en þau vilja að skútan verði boðin upp og andvirði hennar fari til fórnarlamba stríðsins í Írak.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×