Innlent

Prestur á Selfossi kærður fyrir kynferðisbrot

Sóknarpresturinn á Selfossi óskaði í síðustu viku eftir lausn frá störfum eftir að hann var kærður fyrir kynferðisbrot gegn tveimur unglingsstúlkum.

Séra Gunnar Björnsson hefur verið prestur á Selfossi undanfarin sex ár. Í síðustu viku bárust tvær kærur gegn honum til lögreglunnar á Selfossi fyrir kynferðisbrot gegn unglingsstúlkum. Lögreglan á Selfossi kveðst lítið geta sagt um málið á þessu stigi annað en að það sé í rannsókn og að sú rannsókn sé á frumstigi. Samkvæmt heimildum fréttastofu ná meint brot séra Gunnars yfir nokkuð langt tímabil og fréttastofan hefur jafnframt heimildir fyrir því að fleiri stúlkur íhugi að kæra Gunnar fyrir kynferðisbrot.

Sigurður Sigurðarson vígslubiskup í Skálholti staðfesti í samtali við fréttastofu að Gunnar væri ekki lengur starfandi prestur við sóknina. Sigurður sagði Gunnar hafa óskað eftir leyfi í fyrradag, honum hafi verið veitt það og hann hafi hætt um leið. En Gunnar hafi óskað eftir leyfinu á meðan að málið er í rannsókn. Fyrst um sinn mun sóknarpresturinn á Eyrarbakka sjá um að þjóna sókninni.

Fundur er fyrirhugaður í sóknarnefndinni næsta fimmtudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×