Íslenski boltinn

Bilun í flugvél í Keflavík raskaði allri ferðaáætlun Valsliðsins

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Frá Leifsstöð.
Frá Leifsstöð.

Kvennalið Vals lenti í hrakförum á leið sinni til Sala í Slóvakíu þar sem riðill liðsins í Evrópukeppninni hefst á fimmtudaginn. Flugtaki frá Keflavík í morgun seinkaði um meira en þrjá tíma og liðið var enn á leiðinni þegar Fréttablaðið heyrði í Elísabetu Gunnarsdóttur um kvöldmatarleytið.

„Það var hætt við flugtak þegar vélin var að gefa í og var á leiðinni í loftið. Þér snarhemluðu og snéru við vegna einhverra bilunar. Við áttum að fara klukkan hálf átta í morgun en fórum ekki fyrr en klukkan ellefu þannig að það riðlaðist öll restin af ferðinni," segir Elísabet Gunnarsdóttir, annar þjálfara Vals þegar Fréttablaðið náði í hana í rútu á leiðinni frá Vín í Austurríki til Sala í Slóvakíu.

„Við eigum sem betur fer aukadag á morgun," sagði Elísabet en hún var enn að reyna að redda æfingu liðsins á morgun en það virðist vera sem að völlurinn sé aðeins laus fyrri hluta dagsins.

„Við þurfum líka að reyna að ná öllu dótinu okkar á staðinn því það er einhvers staðar í Kaupmannahöfn. Við vonumst til þess að það komi allt til skila á morgun," sagði Elísabet en hópurinn flaug þaðan til Vín þar sem keyrt var síðan í rúma tvo klukkutíma í rútu til Sala.

Valsliðið spilar sinn fyrsta leik í keppninni á fimmtudaginn þegar liðið mætir velsku meisturunum í Cardiff. Í riðlinum eru einnig gestgjafarnir frá Sala í Slóvakíu sem og Maccabi Holon frá Ísrael.

Elísabet segir sínar stelpur vera einbeittar og þær ætli ekki að láta þennan erfiða ferðadag hafa áhrif á sig þegar komið er í leikina.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×