Innlent

Frítt í strætó fyrir fögnuðinn á morgun

Strætó bs hefur ákveðið að bjóða frítt í allar ferðir strætó á morgun frá klukkan 15 og þar til akstri lýkur um miðnætti í tilefni fagnaðarfunda handboltalandsliðsins og íslensku þjóðarinnar. Búist er við miklum mannfjölda í miðbæ Reykjavíkur vegna heimkomuhátíðar silfurverðlaunahafanna frá Ólympíuleikunum og vill Strætó með þessu leggja sitt af mörkum til að einfalda almenningi að taka þátt í hátíðarhöldunum og draga jafnframt úr umferð einkabíla fyrir og eftir skipulagða dagskrá.

Vegna dagskrárinnar í miðbænum verður akstri jafnframt breytt á sjö strætóleiðum. Breytingarnar munu gilda milli klukkan 16 og 19.30 á leiðum 1, 3, 6, 11, 12 og 13, en milli klukkan 10 og 19.30 á leið 14. Notendur Strætó eru hvattir til að kynna sér breytingarnar nánar á vefnum Strætó.is og á veggspjöldum víða um borgina.

„Við hjá Strætó erum stolt af strákunum eins og þjóðin öll og viljum leggja okkar af mörkum til að sem flestir eigi þess kost að fagna með þeim á morgun. Almenningssamgöngur eru einfaldasta og öruggasta leiðin til að koma sem flestum til og frá miðbænum og því viljum við hvetja alla til að nýta sér fríar ferðir Strætó í tilefni dagsins," segir Reynir Jónsson, framkvæmdastjóri Strætó, í tilkynningu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×