Erlent

Vill hitta Elísa­betu Fritzl

Guðjón Helgason skrifar

Frönsk kona, sem mátti þola kynferðislega misnotkun af hendi föður síns í 28 ár og ól honum 6 börn, hefur óskað eftir að hitta dóttur Jósefs Fritzl.

Lydia Gouardo er 45 ára í dag. Faðir hennar byrjaði að misnota hana þegar hún var 10 ára. Hún ól honum 6 börn á árunum 1982 til 1993. Fjölskyldan bjó í þorpinu Coulommes, um 60 kílómetrum austur af París.

Lydia var ekki læst í dýflissu líkt og dóttir Josef Fritzl í Austurríki. Hún mátti hins vegar þola pyndingar ofan á kynferðislegt ofbeldi. Hún reyndi að strjúka nokkrum sinnum en lögregla skilaði henni ætíð aftur til foreldra sinna. Lögmaður Lydiu segir barnarverndaryfirvöld og lögreglu hafa brugðist.

Móðir Gouardo vissi af misnotkuninni en gerði ekkert. Í síðasta mánuði var hún dæmd í 4 ára fangelsi fyrir aðgerðarleysi. Faðir Lydiu lést 1999. Lydia býr enn á heimili foreldra sinna með sambýlismanni sínum. Með honum á hún 2 börn.

Lydia vill nú fá að hitta Elísabetu Fritzl sem Josef Fritzl fangelsaði í dýflissu í 24 ár og ól með 7 börn. Lydia segir að raunir Elísabetu hafi fengið hana til að tjá sig opinberlega um eigin þjáningar og nú vilji hún hitta og ræða við Elísabetu. Ef af því verði vonar hún að þeim verði vel til vina og þær getti stutt hvora aðra.

Hvað Josef Fritzl varðar staðfesti austurríska lögreglan á blaðamannafundi í dag að hann hafi byrjað að skipuleggja dýflissuna 1978, 6 árum áður en hann fangelsaði dóttur sína.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×