Innlent

Blússaði framhjá gjaldskýlinu við Hvalfjarðargöng

Óli Tynes skrifar
Viðkomandi ökumaður hafði fyrir sið að blússa framhjá gjaldskýlinu.
Viðkomandi ökumaður hafði fyrir sið að blússa framhjá gjaldskýlinu.

Ökumaður nokkur fékk á sig kærur fyrir fjársvik fyrir að aka 40 sinnum um Hvalfjarðargöngin án þess að borga.

Viðkomandi ökumaður hafði það fyrir sið að blússa framhjá tollskýlinu án þess að borga. Þar er engin slá og ekkert sem hindrar menn í að haga sér svona. Hinsvegar eru þar myndavélar og annar búnaður þannig að enginn kemst óséður frá þessu.

Venjan er sú að mönnum eru sendi reikningar fyrir veggjaldinu og var það gert í þessu tilfelli. Mörgum, mörgum sinnum. Ef menn sinna ekki þessum reikningum þá fer málið til lögreglunnar. Og það gerðist einnig í þessu tilfelli.

Hinn þrjóski ökumaður var á endanum kærður fyrir fjársvik og til vara nytjastuld. Þarna reynir í fyrsta sinn á hegningarlagaákvæði við svona broti.

Fram til þessa hefur í þessum málum aðeins reynt á ákvæði umferðarlaga.

Dómur í málinu er talinn hafa fordæmisgildi. Ekki síst í ljósi þess að brot af þessu tagi hafa verið algeng og oft um nokkrar fjárhæðir að ræða.

Bara veggjaldið hjá umræddum manni er 36 þúsund krónur. Ef hann verður sekur fundinn bætist við allverulegur aukakostnaður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×