Innlent

Vg vill að hætt verði við loftrýmisgæslu Breta

Árni Þór Sigurðsson er fyrsti flutningsmaður tillögunnar.
Árni Þór Sigurðsson er fyrsti flutningsmaður tillögunnar. MYND/AP

Þingflokkur Vinstri - grænna hefur lagt fram þingsályktunartillögu um að Alþingi feli ríkisstjórninni að tilkynna Bretum og yfirstjórn Atlantshafsbandalagsins að fyrirhuguð loftrýmisgæsla Breta á Íslandi í desember falli niður.

Jafnframt verði utanríkismálanefnd falið að endurskoða áætlun Atlantshafsbandalagsins um loftrýmisgæslu yfir Íslandi sem samþykkt var í júlí 2007 með það að markmiði að hætta með öllu slíkum æfingum. Fram kemur í greinargerð þingflokksins að að Vinstri - græn hafi algerlega lagst gegn umræddri loftrýmisgæslu erlendra þjóða. „Verður ekki séð að nú séu fyrir hendi sérstakar forsendur til að efna til slíkra æfinga né heldur að rétt sé að Bretar, sem beitt hafa hryðjuverkalöggjöf sinni gegn Íslendingum, inni slíkt eftirlit af hendi," segir í greinargerðinni.

Þá benda Vinstri - græn að loftrýmiseftirlitið kosti íslenska ríkið umtalsverðar fjárhæðir og þeim fjármunum verði betur varið til annarra þarfari verkefna á vegum ríkisins. „Margt bendir til að nú geti skapast breiðari pólitísk samstaða en áður um að fella niður hernaðaræfingar á borð við þá sem til stendur að Bretar framkvæmi, sbr. m.a. tilvitnuð ummæli starfandi utanríkisráðherra," segja Vinstri - græn og vísa til orða Össurar Skarphéðinssonar fyrr í mánuðinum um það myndi misbjóða íslensku þjóðarstolti að fá Breta til eftirlitsins miðað við það sem á undan er gengið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×