Tilboðið var sent starfsmönnum í tölvupósti, þar sem fram kom að gera mætti ráð fyrir verulegum samdrætti hjá flestum alríkisstofnunum og að fjölda yrði sagt upp störfum. Tekið yrði fyrir alla fjarvinnu og að viðbúið væri að einhverjir yrðu fluttir til.
Ekki væri hægt að tryggja að nokkur héldi stöðu sinni.
Lesa má úr erindinu að tilgangur tilboðsins er tvíþættur; annars vegar að skera niður og hins vegar að tryggja að þeir sem eftir eru séu hliðhollir nýrri stjórn. Þar kemur meðal annars fram að auknar kröfur yrðu gerðar hvað varðar framgöngu starfsmanna, til að tryggja að þeir væru „áreiðanlegir, hliðhollir og traustsins verðir“.
Stéttarfélög hafa þegar gagnrýnt afarkostina sem starfsmönnum eru settir í erindinu en það er sagt brjóta gegn fjölda reglna um réttindi opinberra starfsmanna. Þá eru áhyggjur uppi um að ákveðin þjónusta við íbúa landsins gæti farið á hliðina ef margir ákveða að ganga að tilboðinu.
Þess ber þó að geta að ákveðnir hópar voru undanskildir og fengu ekki tölvupóst, til að mynda starfsmenn póstsins og landamæraverðir.