Fótbolti

Terry: Trúi ekki að við séum komnir í úrslit

Langþráður draumur þeirra Terry og Lampard varð að veruleika í kvöld
Langþráður draumur þeirra Terry og Lampard varð að veruleika í kvöld NordcPhotos/GettyImages

John Terry, fyrirliði Chelsea, var í sigurvímu eftir að hans menn tryggðu sér sæti í úrslitum Meistaradeildarinnar með 3-2 sigri á Liverpool í frábærum leik í kvöld.

"Þetta var líklega erfiðasti leikur sem ég hef spilað og sannarlega einn sá ánægjulegasti. Hann var hnífjafn alveg eins og leikurinn í gær (United-Barcelona). Við nýttum færin okkar í dag, en við hefðum kannski átt að gæta okkar betur því markið frá Babel hleypti þeim aftur inn í leikinn," sagði ánægður Terry eftir leikinn.

Hann hrósaði félaga sínum Frank Lampard í hástert en sagðist varla vera búinn að kveikja á því að langþráður draumur Chelsea um úrslitaleik í Evrópukeppninni væri orðinn að veruleika.

"Frank er frábær karakter og ég er viss um að hann á eftir að tileinka móður sinni markið sitt í kvöld. Það er ótrúlegt að hann hafi komið á æfingu aftur og tekið þátt í þessum leik eftir hörmungarnar sem dundu á fjölskyldu hans í vikunni sem leið."

"Nú munum við fagna með stuðningsmönnum okkar og leyfa þessu að sökkva inn í hausinn á okkur næstu tvo daga. Það verður stórkostlegt að mæta Manchester United í úrslitunum og fá enskan úrslitaleik. Okkur hefur gengið ágætlega á móti United undanfarið og erum að spila vel - svo þetta verður hörkuleikur," sagði Terry um úrslitaleikinn í Moskvu þann 21. maí nk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×