Fótbolti

Meistaradeildin: Liverpool áfram

Elvar Geir Magnússon skrifar
Hér skorar Fernando Torres eina markið sem kom í kvöld.
Hér skorar Fernando Torres eina markið sem kom í kvöld.

Liverpool komið í átta liða úrslit Meistaradeildar Evrópu. Liðið vann Inter í kvöld 1-0 á útivelli og kemst áfram samanlagt á 3-0 sigri úr tveimur leikjum.

Spánverjinn Fernando Torres skoraði eina markið í kvöld á 63. mínútu. Markið var glæsilegt hjá þessum frábæra leikmanni sem hefur svo sannarlega verið þyngdar sinnar virði í gulli fyrir Liverpool á leiktíðinni.

Þetta mark slökkti heldur betur í Ítalíumeisturunum sem hefðu þurft að skora fjögur til að komast áfram.

Nicolas Burdisso, leikmaður Inter, fékk að líta sitt annað gula spjald í upphafi seinni hálfleiks. Það var virkilega strangur dómur og Inter tíu á vellinum. Tvær brottvísanir í tveimur leikjum gerðu út um vonir Inter í þessu einvígi.

Rafael Benítez heldur áfram að sýna færni sína í Evrópukeppninni og lagði hann leikinn vel upp. Lið Liverpool var virkilega skipulagt og komst virkilega verðskuldað áfram. Inter fékk nokkur virkilega góð færi en náði ekki að finna leiðina framhjá Reina í marki Liverpool í þessum tveimur leikjum.

Þetta er lokaleikur sextán liða úrslitana. Dregið verður í átta liða úrslitin á föstudag en í pottinum verða Chelsea, Schalke, Roma, Arsenal, Manchester United, Barcelona, Fenerbache og svo auðvitað Liverpool.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×