Innlent

Fíkniefnamagnið var 0,5 grömm

Bifröst.
Bifröst.

Fíkniefnamagnið sem fannst á heimavist nemenda í Háskólanum á Bifröst nemur einungis 0,5 grömmum, samkvæmt heimildum Vísis. Um var að ræða 0,2 grömm af kannabisefnum en 0,3 grömm af kókaíni og amfetamíni. Í samtali við Vísi sagðist Theódór Þórðarson yfirlögregluþjónn ekki geta staðfest þessar upplýsingar þar sem efnin hefðu ekki verið vigtuð. Þó væri ljóst að um væri að ræða ætluð kannabisefni annars vegar og ætlað kókaín og amfetamín hins vegar. Theódór sagði að fyrir lægi að það magn sem um væri að ræða væri mjög lítið.

Fjölmennt lögreglulið úr Borgarfirði, Dölum, fíkniefnalögreglunni í Reykjavík og úr sérsveit ríkislögreglustjóra, ásamt tollgæslumönnum og þremur fíkniefnahundum, gerði húsleit á staðnum í þremur íbúðum við háskólann í gærkvöld. Leitin var gerð í samráði við skólayfirvöld og voru sérsveitarmenn vopnaðir, þar sem óttast var að vopn væru í einni íbúðinni en svo reyndist þó ekki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×