Fótbolti

Theodór sá efnilegasti síðan Eiður Smári kom fram

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Torgeir Bjarmann og Theodór Elmar Bjarnason.
Torgeir Bjarmann og Theodór Elmar Bjarnason.

Stefán Gíslason, fyrirliði danska úrvalsdeildarliðsins Bröndby og fyrrum leikmaður Lyn, segir að Theodór Elmar Bjarnason sé efnilegasti leikmaður sem Ísland hefur alið af sér síðan að Eiður Smári Guðjohnsen kom fram á sjónarsviðið.

Þetta segir Stefán í samtali við Aftenposten í Noregi í dag og Torgeir Bjarmann, yfirmaður íþróttamála hjá Lyn, er ekki í vafa um hæfileika Theodórs Elmars.

„Hann er góður og mun koma til með að blómstra hjá Lyn þegar hann fær að spila hvern leikinn á fætur öðrum," sagði Bjarmann.

„Honum stóð til boða að ganga til liðs við stærri félög en Brann," sagði Stefán. „En hann vissi að Lyn er duglegt að nota unga leikmenn. Hann hefur gott af því að vera í Noregi í nokkur ár áður en hann fer í sterkari deild í Evrópu."

„En ég er ekki viss um að margir í Noregi átti sig ekki á hversu mikið efni hann er. Ef hann heldur áfram að þróast sem knattspyrnumaður mun hann spila með toppfélagi í Evrópu eftir 2-3 ár í mesta lagi."

„Hann var meðal bestu leikmanna liðsins strax í sínum fyrsta A-landsleik fyrir Íslands hönd. Hann hefur mikla trú á sjálfum sér og telur að hann muni ná langt á sínum ferli."

Eftir því sem heimildir Aftonposten herma borgaði Lyn um tíu milljónir króna fyrir Theodór Elmar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×