Menning

Tilbrigðatónsmíðar í kvöld

Nordic Affect Hefur vetrartónleikaröð sína í Þjóðmenningarhúsinu í kvöld.
Fréttablaðið/Anton
Nordic Affect Hefur vetrartónleikaröð sína í Þjóðmenningarhúsinu í kvöld. Fréttablaðið/Anton

Kammerhópurinn Nordic Affect hefur vetrartónleikaröð sína í Þjóðmenningarhúsinu við Hverfis­götu í kvöld kl. 20. Á þessum fyrstu tónleikum starfsvetrarins, sem bera yfirskriftina „Fram og til baka", verður efnisskráin tileinkuð tilbrigðatónsmíðum. Fjölbreytnin ræður ríkjum og flakkað verður um í tíma því flutt verða allt frá tilbrigðum 17. aldar fiðlarans David Mell við lagið „John Come Kiss Me" til tveggja nýrra tónsmíða eftir Gunnar Andreas Kristinsson. Verk Gunnars eru samin sérstaklega fyrir Nordic Affect og byggja tónsmíðarnar á hringitónum.

Kammerhópurinn Nordic Affect hefur á tónleikum sínum á Íslandi og erlendis flutt allt frá danstónlist 17. aldar til hinnar spennandi raftónsköpunar nútímans. Hópurinn hefur fengið afbragðs dóma fyrir leik sinn og vakið athygli fyrir stílinnlifun og þróttmikinn leik. Listrænn stjórnandi hópsins er Halla Steinunn Stefánsdóttir.

Miðaverð á tónleikana í kvöld er 2.000 kr., en námsmenn og eldri borgarar fá miðann á 1.500 kr.

- vþ






Fleiri fréttir

Sjá meira


×