Innlent

Mótmæla því að frekar sé þrengt að endurhæfingu geðsjúkra

MYND/Valgarður

Stjórn Geðlæknafélags Íslands hvetur stjórnvöld eindregið til þess að hætta við að loka starfsendurhæfingu Bergiðjunnar við Kleppsspítala og að breyta deild 28 í Hátúni 10 úr sólarhringsdeild í dagdeild. Segir félagið heilsu 60-80 manna stefnt í voða ef síðarnefndu áformin verða að veruleika.

Í ályktun sem félagið sendir frá sér í dag segir að með þessum ákvörðunum verði þrengt enn frekar að allri endurhæfingu geðsjúkra. Endurhæfingarmöguleikar séu nú þegar mjög takmarkaðir og ekki í sjónmáli nein úrræði sem koma í staðinn.

Ályktunin er send helstu stjórnendum Landspítalans og Guðlaugi Þór Þórðarsyni heilbrigðisráðherra. Bent er á að á síðustu árum hafi bæði bráðaplássum og endurhæfingar- og langvistarrýmum fækkað m.a. með lokun geðdeildar í Fossvogi og lokun Arnarholts. „Alls hefur plássum fækkað um 120 án þess að ný og viðeigandi samfélagsúrræði hafi verið til reiðu. Þannig hafa möguleikar Geðsviðs LSH bæði til bráðameðferðar og til endurhæfingar stöðugt verið að skerðast," segir í ályktuninni.

Þar er enn fremur bent á að ef dregið verði úr þjónustu deildar 28 í Hátúni 10 sé heilsu 60-80 geðfatlaðra manna stefnt í voða. „Ekki verður séð hvernig byggja á nýtt sjúkrahús og reka, ef stöðugt er dregið saman og lögð af nauðsynleg og vel rekin þjónusta en Endurhæfingarsvið Geðsviðs hélt sig innan ramma fjárhagsáætlunar á árinu 2007," segir að endingu í ályktun Geðlæknafélagsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×