Innlent

Heimasíða til höfuðs Sláturfélagsforstjóra

Andri Ólafsson skrifar
Steinþór Skúlason forstjóri SS
Steinþór Skúlason forstjóri SS

Jónas Jónsson, stjórnarformaður Sláturfélags Suðurlands, segir að nokkrir óánægðir starfsmenn, sem nýlega hafi sagt upp hjá fyrirtækinu, vinni nú gegn því og reyni að skapa leiðindi. Heimasíða var stofnuð til höfuðs forstjóranum í gær.

"Þetta eru menn sem eru sárir og eru að reyna að gera okkur lífið leitt," segir Jónas.

Vísir hefur áður sagt frá óánægju núverandi og fyrrverandi starfsmanna SS. Meðal annars þann 6. febrúar þegar nokkrir starfsmenn sögðu upp störfum, þar af yfirmaður markaðs og söludeilda, vegna óánægju.

Í gær var svo stofnuð heimasíða á slóðinni slaturfelagid.com en yfirskrift síðunnar er: "Við viljum nýjan forstjóra hjá SS!" . Forstjórinn sem um ræðir er Steinþór Skúlason en stærstur hluti gagnrýninnar sem borin hefur verið fram er beint gegn störfum hans.

Jónas Jónsson stjórnarformaður segir að svona lagað sé andstyggilegt að hafa en hann vonast til þess að þessi óánægja hjaðni fljótt. Hann segist bera fullt traust til forstjórans.

Aðspurður hvort starfsandinn sé slæmur hjá SS svarar Jónas að svo sé ekki. Þegar undir hann er borin könnun VR á viðhorfi starfsmanna til SS, en þar fékk fyrirtækið næst verstu mælinguna af 117 fyrirtækjum, svaraði Jónas: "Þá er starfsfólkið ekki að segja mér allt. Þegar ég ræði við fólkið í fyrirtækinu heyri ég ekki betur en að andinn sé góður."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×