Innlent

Lýsir áhyggjum af stöðu ríkissjóðs

Valgerður Sverrisdóttir hefur áhyggjur af stöðu ríkissjóðs í ljósi nýjustu sviptinga í efnahagslífinu.
Valgerður Sverrisdóttir hefur áhyggjur af stöðu ríkissjóðs í ljósi nýjustu sviptinga í efnahagslífinu. MYND/GVA

Valgerður Sverrisdóttir, varaformaður Framsóknarflokksins, fagnar því að samningar hafi náðst á vinnumarkaði en lýsir yfir áhyggjum af stöðu ríkissjóðs í ljósi breytinga á markaði og síðustu fjárlagagerðar.

„Það er ánægjulegt að það skuli hafa náðst samningar og það samningar þar sem sérstaklega er bætt staða þeirra sem lægst hafa launin. Ég óska aðilum vinnumarkaðarins til hamingju með samninginn," segir Valgerður.

Um framlag ríkisstjórnarinnar segir Valgerður að þar kenni margra grasa sem séu kunnugleg og henni sýnist sem þar séu tillögur sem framsóknarmenn geti fallist á.

Hins vegar sé óljóst hver staða ríkissjóðs sé eftir samninga. „Það er ljóst að tekjur ríkissjóðs minnka vegna breytinga á markaði að undanförnu og það bætist við fjárlögin í ár sem við framsóknarmenn gagnrýndum harðlega enda var um að ræða 20 prósenta hækkun frá fyrra ári," segir Valgerður. Framsóknarmenn hyggjast funda í dag þar sem rætt verður um það til hvaða fagaðila verði leitað til að fá álit á rekstrarstöðu ríkissjóðs bæði í ár og næstu ár.

Aðspurð hvort nýir kjarasamningar muni að hennar mati stuðla að lækkun verðbólgu og vaxta í landinu segir Valgerður að óvissuþættinir séu margir. Hún veltir fyrir sér hvernig Seðlabankinn muni meta samningana. „Mun hann meta samningana sem verðbólguhvata og halda vöxtum áfram háum?" spyr Valgerður. Þá bendir hún að fram undan sé hækkun á matvælaverði meðal annars vegna lækkandi gengis krónunnar og það auki á verðbólguna. „Það er eitt púsluspil að ná fram viðunandi vöxtum og verðbólgu hér á landi og því er áfram mikið verka að vinna," segir Valgerður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×