Innlent

Varar verslunarfólk við stolnum kortum

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu brýnir fyrir afgreiðslufólki að skoða vel myndir á bakhlið greiðslukorta til þess að koma í veg fyrir að óprúttnir aðilar misnoti kort sem þeir eiga ekki.

Lögreglan handtók mann um helgina en hann hafði brotist inn í íbúð og m.a. stolið þaðan greiðslukorti húsráðanda. Kortið notaði hann síðan til að svíkja út vörur í verslunum. Lögregla brýnir einnig fyrir verslunarfólki að bera saman undirskriftir. Mikilvægt sé að afgreiða alls ekki vörur út á greiðslukort sem er framvísað af öðrum en handhafa kortsins. „Reyni einhver að fá vörur út á greiðslukort, sem greinilega er ekki eign hans, þarf að kalla til lögreglu. Þá þarf að taka til hliðar kort, sem eru vákort, eða ætla megi að svo sé," segir lögregla í tilkynningu.

Lögreglan hvetur til aðgæslu í þessum efnum og vísar til þess að ungur maður sveik nýlega út vörur fyrir rúmar þrjú hundruð þúsund krónur í verslun einni. Hann lét útbúa raðgreiðslur í bæði skiptin, sem er sennilega til þess að eiga síður hættu á synjun á kortið. „Af upptökum úr öryggiskerfi verslunarinnar að dæma var hann hvorki spurður um persónuskilríki, né litið á kortið um hvort hann gæti verið eigandi þess eða ekki. Hann var látinn skrifa undir raðgreiðslusamningana og gekk síðan út með vörurnar. Vörurnar lét maðurinn síðan í skiptum fyrir fíkniefni.

Þá er dæmi um að afgreiðslumaður í verslun hafi "straujað" greiðslukort viðskiptavinar þrisvar sinnum. Alltaf komu upplýsingar fram um að um vákort væri að ræða. Þrátt fyrir það fór manneskjan út úr versluninni - með kortið," segir lögreglan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×