Innlent

Rannsókn á flótta Annþórs ætti að ljúka í dag

Annþór Kristján Karlsson, til vinstri, var leiddur fyrir dómara á föstudag eftir að hann fannst í fataskáp í Mosfellsbæ.
Annþór Kristján Karlsson, til vinstri, var leiddur fyrir dómara á föstudag eftir að hann fannst í fataskáp í Mosfellsbæ.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu rannsakar nú hvað fór úrskeiðis á föstudaginn var þegar Annþóri Kristjáni Karlssyni tókst að flýja úr klefa sínum á lögreglustöðinni á Hverfisgötu. Reiknað er með að málið skýrist seinnipartinn í dag. Klefinn hans var ólæstur og undir morgun fór hann fram á gang, náði sér í kaðalspotta og braut rúðu á ganginum. Síðan lét hann sig síga niður og fór huldu höfði fram eftir degi.

Friðrik Smári Björgvinsson yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni segir að líklega skýrist málið seinna í dag. „Þá verður búið að ná tali af öllum þeim sem þarf að tala við," segir hann. Friðrik segir enn ekki ljóst hvernig standi á því að klefi Annþórs hafi verið ólæstur yfir nóttina, en að það skýrist væntanlega í dag. „Að öllu óbreyttu hefði klefinn átt að vera læstur," segir Friðrik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×