Innlent

Samningar ASÍ aldrei fyrirmynd að kennarasamningum

Kjarasamningar Alþýðusambandsins við atvinnurekendur verða aldrei fyrirmynd að samningum við kennara, segir Eiríkur Jónsson, formaður Kennarasambands Íslands. Sterkari aðgerðir þurfi til að stöðva flóttann úr stéttinni. Halldóra Friðjónsdóttir, formaður BHM, segir ríkið ekki geta tekið upp hráa samningastefnu atvinnurekenda.

Stjórnvöld og aðilar vinnumarkaðarins lýstu í gær ánægju sína með kjarasamningana sem undirritaðir voru í gærkvöldi. Tíu vikur eru í að samningar losni hjá tíu þúsund félagsmönnum BHM. Halldóra Friðjónsdóttir, formaður félagsins, sagði í samtali við fréttastofu í dag, að ógjörningur væri að yfirfæra samninga af almennum markaði á hið opinbera. Hjá BHM séu allir á töxtum.

Auk þess sjái hún ekki hvernig ríkið geti farið sömu leið og Samtök atvinnulífsins þar sem stjórnarsáttmálinn taki sérstaklega fram að leiðrétta eigi kjör kvennastétta - en 75% félagsmanna BHM eru konur. Samningar rösklega sexþúsund kennara losna nú á vormánuðum. Formaður Kennarasambandsins fagnar því ef nýju kjarasamningarnir virka fyrir félagsmenn ASÍ.

Hjá hinu opinbera er meginreglan sú að fólk fær laun eftir töxtum, segir Eiríkur. Eiríkur segir menn þurfa að horfast í augu við að sterkar aðgerðir þurfi til að stöðva flóttann úr kennarastéttinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×