Viðskipti erlent

Anno horribiles fyrir Danske Bank

Illvígur og þrálátur orðrómur um Danske Bank hefur gert 2008 að anno horribiles fyrir bankann sem hefur misst 75% af markaðsverðmæti sínu frá áramótum. Og þar sem bankinn hefur lengi verið flaggskip danska fjármálaheimsins hefur orðrómurinn smitað út frá sér.

Í umfjöllun á Business.dk er farið yfir fjórar helstu kjaftasögurnar sem gert hafa Danske Bank lífið leitt á árinu.

Sú fyrsta er að þegar verð á hlutnum í Danske Bank fer undir 50 danskar kr. er bankinn gjaldþrota.

Önnur er að ef verð á hlutnum fer undir 60 dkr. muni erlend lán bankans upp á fleiri milljarða dkr. verða gjaldfelld.

Þriðja er að bankinn standist ekki lög um rekstur sinn þar sem eiginfjárhlutfall hans sé komið undir 8%.

Og sú fjórða er að bankinn þurfi að fara í hlutafjáraukningu sem geri hlut núverandi eigenda enn verðminni en áður.

Jonas Torp blaðafulltrúi Danske Bank biður kúnna bankans, fjárfesta og aðra að kynna sér staðreyndir um reksturinn en hlusta ekki á tilhæfulausan orðróm. Bankinn hafi hvorki komið verr né betur en aðrir bankar út úr fjármálakreppunni.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×