Innlent

Strætisvagnar kjaftfullir á álagstímum

Steindór Gunnar skrifar
Farþegum hefur fjölgað mikið frá því að ákveðnum hópum var gefið frítt í strætó.
Farþegum hefur fjölgað mikið frá því að ákveðnum hópum var gefið frítt í strætó. MYND/Valli

Strætisvagnar í Reykjavík anna ekki fjölda farþega á álagstímum sem fá frítt í strætó. Nemendur kvarta undan yfirfullum vögnum. Reynir Jónsson, framkvæmdarstjóri Strætós bs., segir fyrirtækið ekki hafa verið tilbúið að mæta kröfum borgarinnar.

„Vagnarnir eru kjaftfullir og þeim verður að fjölga," segir Heiða Ösp Guðmundsdóttur, nemandi í Háskóla Íslands sem ferðast með yfirfullum strætó á hverjum morgni ofan úr Grafarvogi. Eftir að námsmannakortin tóku gildi hefur námsmönnum í strætó fjölgað um 30%, en í heild hefur farþegum fjölgað um 13,65% eða um 97 þúsund farþega á milli ára.

Reynir Jónsson, framkvæmdarstjóri Strætós bs., viðurkennir að það sé „vandræðaástand". Þetta sé spurning um 45 mínútur álagsglugga á dag. Stundum þurfi að bæta við tveimur til þremur vögnum og þannig séð verið að reyna að bregðast við álaginu.

Reynir bendir einnig á að Strætó bs. eigi ekki fleiri vagna og þar að auki fæst ekki mannskapur til að keyra bílana. „Það að gefa frítt í strætó var pólitísk ákvörðun sem kemur okkur ekki við," segir Reynir. Hann bendir á að þeir séu einungis þjónustuaðili og að Strætó bs. hafi ráðið við þetta hingað til.

Með flutningi Háskólans í Reykjavík og Kennaraháskóla Íslands má svo búast við enn meiri farþegafjölda í strætó á þeim leiðum sem fara á Háskólasvæðið. Vagnar Strætós bs. taka frá 96 uppí 102 farþega en einungis eru sæti fyrir 34 til 37 farþega.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×