Felipe Aguilar frá Chile hefur tveggja högga forystu á opna indónesíska meistaramótinu í golfi en mótið er hluti af Evrópumótaröðinni.
Aguilar lék frábærlega í dag, á 62 höggum eða átta undir pari vallarins. Hann fékk einfaldlega átta fugla og tíu pör en hann hefur ekki fengið skolla síðan á fyrstu holuni á fyrsta keppnisdeginum.
Suður-Afríkumaðurinn James Kamte og Prom Meesawat frá Tælandi koma næstir en sá fyrrnefndi hafði forystuna eftir gærdaginn. Þá lék hann á 62 höggum en kláraði á 67 höggum í dag. Meesawat lék á 63 höggum í dag.
Norður-Írinn Darren Clarke er í 20.-28. sæti á mótinu en hann lék á 67 höggum í dag, einu betra en í gær. Hann gerði sér reyndar lítið fyrir í dag og náði holu í höggi á fjórðu holu, sem er 128 metra löng par þrjú hola.
Birgir Leifur Hafþórsson er ekki meðal keppenda á mótinu.