Innlent

46 nýir bílar seljast á dag

Þrjátíu prósent fleiri nýir bílar voru skráðir til heimilis á Íslandi það sem af er þessu ári, miðað við sama tíma í fyrra. Og enn fleiri bílum var fleygt í brotajárn. Bílasalar eru brattir og búast ekki við miklum samdrætti.

Það er sum sé ekkert lát á sölu nýrra bíla á landinu. Sá kvittur var á kreiki að bílasala hefði hrunið um miðjan síðasta mánuð. Ekkert er fjær sanni. Samkvæmt tölum frá Umferðarstofu voru rösklega tvöþúsund og níuhundruð nýir bílar skráðir hér með heimilisfestu frá áramótum og fram í miðjan febrúar.

Það gerir 44 bíla á dag.

Síðan þá hefur bjartsýnin í þjóðfélaginu tekið nokkra dýfu, en ekki hjá þeim sem langaði í nýjan bíl. Því frá miðjum febrúar og til gærdagsins voru tæplega tólfhundruð nýir bílar skráðir hjá Umferðarstofu.

Það gerir 46 bíla á dag.

Og bjartsýnin er allsráðandi þegar við skoðum tölur frá í fyrra, frá áramótum 2007 til 12. mars voru rúmlega 3200 (3221) nýir bílar skráðir.

Á þessu ári voru þeir 4115 - 28% fleiri.

Og þeim fækkar heldur ekkert bílunum sem er kastað á haugana eða seldir á fimmtánþúsundkall í brotajárn...

Frá áramótum til 12. mars í fyrra - var rúmlega 1490 bílum fleygt - en nú frá áramótum lauk æviskeiði 1612 eintaka af þarfasta þjóninum.

 

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×