Innlent

LSH vill reka ungbarnaleikskóla til að vinna á manneklu

MYND/GVA

Forsvarsmenn Landspítalans hafa farið þess á leit við Reykjavíkurborg að fá að koma á fót ungbarnaleikskóla. Með því vilja þeir reyna að draga úr manneklu á spítalanum. Skiptar skoðanir eru málið meðal fulltrúa flokkanna í borginni.

Erindi spítalans var lagt fram á fundi leikskólaráðs borgarinnar í síðstu viku. Að sögn Ernu Einarsdóttur, sviðsstjóra starfsmannasviðs Landspítalans, er um tilraunaverkefni að ræða en gert er ráð fyrir að skólinn yrði fyrir börn starfsmanna sem eru á aldrinum 10 mánaða til tveggja ára. „Við sjáum það að unga fólkið okkar fær ekki inni fyrir börnin á leikskólum og við fáum það ekki í vinnu. Við eigum við mikla manneklu að etja og fólkið okkar er í raun auðurinn okkar á þessum mikla sérfræðingavinnustað. Eitt þeirra úrræða sem við höfum er að auðvelda foreldrum að koma börnum sínum fyrir á leikskóla," segir Erna um hugmyndina.

Aðspurð segir Erna skort á hjúkrunarfræðingum á spítalanum eins og víðar og sömuleiðis er skortur á sjúkraþjálfurum og iðjuþjálfum. „Við viljum meina að við séum aðalsjúkrahús landsins og við þjónum landinu öllu og erum stærsti vinnustaður landsins. Auðlindin er sérfræðiþekkingin en við höfum misst ungar konur út eftir barneignir og við því erum við að bregðast," segir Erna og bendir á að spítalinn hafi áður rekið leikskóla fyrir starfsmenn, bæði við Hringbraut, Landakot og í Fossvogi. Forsvarsmenn Landspítalans horfa til húsnæðis á Valslóðinni undir starfsemina sem yrði þá mitt á milli beggja stóru spítalanna.

Vinstri - græn og Samfylkingin gjalda varhug við hugmyndinni

Þegar erindið var tekið fyrir í leikskólaráði í síðustu viku tóku fulltrúar meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks jákvætt í erindið. Ákveðið að óska eftir áliti lögræðings sviðsins á því hvort það brjóti í bága við jafnræðisreglu. Einnig var sviðsstjóra leikskólasviðs falið að afla frekari upplýsinga hjá Landspítalanum og kynna þær fulltrúum í ráðinu.

Fulltrúar Samfylkingarinnar og Vinstri - grænna í ráðinu gjalda hins vegar varhug við hugmyndinni. Þannig hefur Samfylkingin lýst sig andsnúna hugmyndum um fyrirtækjarekna leikskóla sem og uppbyggingaráformum smábarnaleikskóla. „Fulltrúar hennar telja eðlilegt að þörfinni verði mætt með uppbyggingu nýrra leikskóla, að byggt verði við eldri leikskóla og að sífellt yngri börn fái þannig örugga vistun," segir í bókun fulltrúa Samfylkingarinnar. „Við höfum samúð með sjónarmiðum forsvarsmanna Landspítalans enda hefur mannekla verið til staðar á Landspítalanum, eins og svo víða í þjóðfélaginu, en ítrekum þá eindregnu skoðun okkar að almannafé sé betur varið til hraðari uppbyggingar leikskóla - fyrir öll börn borgarinnar," segir einnig í bókuninni.

Í svipaðan streng tekur fulltrúi Vinstri - grænna og segist hafa skilning á vanda Landspítalans. „Vinstri græn sjá þó ekki að lausn vandans felist í því að vinnustaðir taki verkefnið að sér, heldur verða borgaryfirvöld að forgangsraða með öðrum hætti. Bæta þarf aðbúnað og starfskjör starfsfólks í leikskólum og halda áfram metnaðarfullri uppbyggingu á leikskólum, jafnt innra starfi sem ytra byrði. Jafnframt er veruleg hætta á því að einsleitni aukist við úrræði af þessu tagi þar sem börnum með svipaðan bakgrunn er hópað saman. Vinstri græn ítreka þá staðreynd að ekkert faglegt mat hefur verið lagt á gildi ungbarnaleikskóla umfram inntöku yngri barna í hefðbundna leikskóla," segir meðal annars í bókun fulltrúa Vinstri - grænna í leikskólaráði.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×