Innlent

Öryggi aukið í Sundlaug Kópavogs

Myndavélakerfi sem nemur ef fólk liggur hreyfingarlaust á sundlaugarbotni verður tekið í notkun í Sundlaug Kópavogs í næsta mánuði. Þetta er í fyrsta sinn sem slíkt kerfi er sett upp hér á landi en það hefur orðið mönnum til bjargar erlendis.

Fyrir rúmu ári fannst fimmtán ára piltur meðvitundarlaus á botni Sundlaugar Kópavogs. Ekki er vitað fyrir víst hversu lengi hann hafði lengið þar en um fimmtán mínútur voru frá því að sundtíma sem hann var í lauk. Pilturinn komst aldrei til meðvitundar og lést í september í fyrra. Í framhaldinu voru öryggismál laugarinnar tekin til endurskoðunar. Afraksturinn af því er nú að líta dagsins ljós því um næstu mánaðarmót verður tekið upp nýtt öryggiskerfi í lauginni sem á að koma í veg fyrir slys sem þessi.

Sundlaug Kópavogs er fyrsta sundlaugin hér á landi sem tekur kerfið í notkun. Um er að ræða myndavélakerfi þar sem tugir myndavéla sem nemar hreyfingarleysi eru staðsettar víðsvegar um sundlaugina. Ef maður eða hlutur liggur hreyfingarlaus á botni laugarinnar í fimmtán sekúndur gefur kerfið frá sér viðvörunarhljóð, sundlaugavörður getur þá séð á tölvuskjá hvar viðkomandi er í lauginni og reynt að bjarga honum. Pétur Magnús Birgisson settur forstöðumaður Sundlaugar Kópavogs segir að kerfið komi til með að auka öryggi sundlaugagesta verulega. Kerfið hefur verið notað erlendis við góða raun og orðið mönnum til bjargar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×