Fótbolti

Kristján sá rautt í tapi Brann

Kristján Örn í leik með Brann.
Kristján Örn í leik með Brann. Nordic Photos / AFP
Kristján Örn Sigurðsson fékk að líta rauða spjaldið er leikmenn Álasunds skoruðu öll sex mörkin í 4-2 sigri liðsins á Brann í norsku úrvalsdeildinni.

Kristján Örn og Ólafur Örn Bjarnason voru á sínum stað í vörn Brann-liðsins. Kristán fékk að líta tvö gul spjöld í leiknum, það fyrra á 39. mínútu og svo aftur á 65. mínútu.

Staðan var 1-1 í hálfleik en leikmenn Álasunds skoruðu tvívegis á fyrstu fimm mínútum síðari hálfleiks. Brann náði svo að minnka muninn undir lok leiksins en bæði mörk Brann voru sjálfsmörk leikmanna Álasunds.

En Álasund bætti við fjórða markinu í uppbótartíma og skoruðu því leikmenn liðsins öll sex mörkin í sigri liðsins á sjálfum Noregsmeisturunum.

Gylfi Einarsson kom inn á fyrir Erik Bakke strax á sextándu mínútu í liði Brann en Ármann Smári Björnsson er frá vegna meiðsla.

Haraldur Freyr Guðmundsson sat allan leikinn á varamannabekk Álasunds.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×