Innlent

Litháískir fangar ánægðir með launin á Litla Hrauni

Frá Litla - Hrauni
Frá Litla - Hrauni

„Það er mín tilfinning að þeim finnst þeir ekki hafa neinu að tapa. Ef smyglið tekst koma þeir út í gróða en ef það mistekst fá þeir vinnu í fangelsi á launum sem þykja bærileg í Litháen," segir Einar Loftur Högnason, fangavörður á Litla Hrauni, í samtali við Fréttablaðið í dag. Einar Loftur og aðrir starfsmenn Fangelsismálastofnunar segja þó að Litháar séu einkar vel liðnir innan fangelsisveggjanna. Þeir séu harðduglegir, snyrtilegir og eigi auðvelt með að búa í návígi við aðra.

Í Fréttablaðinu í dag er fréttaskýring eftir Karen D. Kjartansdóttur og Magnús Halldórsson blaðamenn. Þar kemur fram að dómsmálaráðuneytið vinni að því að kanna möguleika á því að senda erlenda ríkisborgara sem gerst hafi brotlegir við lög hér á landi til afplánunar í heimalandi sínu. Þar segir að útlendingum hafi fjölgað ört í íslenskum fangelsum undanfarin áratug. Þeir séu nú um sextán prósent af heildarfjölda fanga. Stefán Eiríksson lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu segir þetta vera eina af birtingarmyndum alþjóðavæðingar.

Fréttablaðið segir viðmælendur sína innan lögreglunnar og Fangelsismálastofnunar vera sammála um að það geti valdið vandræðum ef útlendingar nái að mynda tengsl við íslenska fanga. Þannig sé líklegra að skipulögð glæpastarfsemi nái að skjóta rótum hér á landi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×