Innlent

Enn beðið eftir tillögum ríkisstjórnarinnar

Geir Haarde og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir.
Geir Haarde og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir.

Undirritun kjarasamninga er ekki í augsýn fyrr en í fyrsta lagi seinni partinn á morgun, segir forseti Alþýðusambands Íslands - og þá aðeins ef ríkisstjórnin kemur fram með viðunandi tillögur. Tillögur ríkisstjórnarinnar voru ekki kynntar nú síðdegis eins og vonast hafði verið eftir.

Lokaspretturinn í kjaraviðræðunum hefur verið aðeins lengri en bjartsýnustu menn þorðu að vona - og málið dregist beggja vegna borðsins. Í Karphúsinu hafa fulltrúar Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins setið stíft við fundahöld frá því klukkan tíu í morgun. Einkum hefur verið rætt um sérkröfur landssambandanna innan ASÍ. Grétar Þorsteinsson var um hádegið bjartsýnn á að mönnum tækist að ljúka öllu í dag en þegar fréttastofa hafði samband við hann nú á sjötta tímanum, sagði hann enn nokkur mál óleyst en átti ekki von á öðru en að hægt yrði að klára öll mál við atvinnurekendur seint í kvöld.

Samkvæmt heimildum fréttastofu er verið að reka smiðshöggið á tillögur ríkisstjórnarinnar í tengslum við kjarasamningana, en ekki tókst að klára þær í dag og kynna eins og útlit var fyrir. Hins vegar er ekki útilokað að aðilar vinnumarkaðarins verði boðaðir til fundar seint í kvöld. En þótt verkalýðshreyfingunni og atvinnurekendum hugnist það sem ríkisstjórnin hefur fram að bjóða eru allar líkur á að menn hvíli sig í nótt og ljúki pappírsvinnunni á morgun. Því er ekkert sem bendir til að kjarasamningar verði í höfn þegar landsmenn skríða fram úr í fyrramálið, en gæti orðið seinnipartinn á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×