Innlent

Síðasti sjéns til þess að fá sér Burger King á Íslandi

Hamborgarastaðurinn Burger King mun loka eftir daginn í dag. Framkvæmdarstjórinn segir að um rekstrarhagræðingu sé að ræða en nýr staður með nýju nafni verður opnaður strax eftir áramót. Burger King hefur verið á tveimur stöðum í Reykjavík að undanförnu, en staðurinn opnaði fyrst árið 2004.

„Þetta er fyrst og fremst rekstrarhagræðing. Það er búið að segja fólki upp og það er síðasti dagurinn í dag," segir Ævar Olsen framkvæmdarstjóri Burger King á Íslandi.

Hann segir ástandið hafa verið orðið ansi erfitt þar sem miklar kvaðir hafi verið á innflutningi. „Þetta var orðinn ansi erfiður rekstrargrundvöllur fyrir fjögurra ára gamalt fyrirtæki," segir Ævar en Burger King er í eigu félags sem heitir Tankur ehf. en það félag rekur einnig veitingastaðinn Fridays í Smáralindinni.

„Fridays gengur rosalega vel en þetta var öðruvísi með Burger. Við sáum því ekki annan kost en að loka og opna nýjan stað með öðru nafni og nýjum matseðli," segir Ævar en megnið af starfsfólkinu fær vinnu á nýja staðnum.

Ævar vill ekkert segja um nýja staðinn og segir fólki að bíða spennt þar til þriðju vikuna í janúar, en þá mun staðurinn opna í Smáralind.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×