Innlent

Árni: Umsögn dómnefndar gölluð og ógagnsæ

Árni Mathiesen fjármálaráðherra segir umsögn dómnefndar um umsækjendur um embætti dómara við Héraðsdóm Norðurlands eystra og Austurlands gallaða og að hún hafi verið ógagnsæ, lítt rökstudd og innra ósamræmis hafi gætt við mat á reynslu sem hin ýmsu störf gefa.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Árna í kjölfar greinargerðar sem dómnefndin sendi frá sér í gær. Þar átaldi hún störf ráðherra alvarlega en hann gekk gegn áliti hennar og skipaði Þorstein Davíðsson héraðsdómara þrátt fyrir að þrír umsækjendur um starfið væru metnir hæfari en hann.

Sakaði dómnefndin ráðherra um óvönduð vinnubrögð og sagði að í 16 ára sögu nefndarinnar hefðu ráðherrar iðulega virt röstudda niðurstöðu hennar. Þeir hefðu ekki ævinlega valið þann umsækjanda sem dómnefnd setti í fyrsta sæti, ef slíkri röðun var beitt, heldur valið annan úr hópi þeirra, sem taldir voru hæfastir.

Árni segir í svari sínu í dag nefndin fari með rangt mál þegar hún haldi því fram að það sé einsdæmi að ráðherra fari ekki að áliti nefndarinnar. Um það séu bæði nýleg og eldri dæmi. „Einu gildir hversu mikill munur er á áliti nefndarinnar og niðurstöðu ráðherrans. Staðreyndin er sú að það er ekki einsdæmi að ekki sé farið að áliti nefndarinnar," segir Árni.

Þá segir Árni að ráðherra beri í störfum sínum að taka sjálfstæða afstöðu til mála sem fyrir hann eru lögð og meta sjálfstætt álit hinna ýmsu nefnda sem vinna að undirbúningi mála fyrir hann. Það sé ráðherrann sem hefur skipunarvaldið og þar með ábyrgðina og hvorugu geti hann afsalað sér.

 

„Honum ber að fara eftir eigin sannfæringu í sérhverju máli en ekki sannfæringu annarra. Í þessu tilfelli telur ráðherrann að gallar hafi verið á umsögn dómnefndar sem hafi verið ógagnsæ, lítt rökstudd og innra ósamræmis gætt við mat á reynslu sem hin ýmsu störf gefa. Dómnefndin hefur auðvitað þann lýðræðislega rétt að hafa skoðun á niðurstöðu og rökstuðningi ráðherrans en ráðherranum ber beinlínis skylda til þess að hafa skoðun á umsögn nefndarinnar og fara eftir eigin mati við skipun í embættið ef hann greinir á við nefndina," segir Árni.

Þá bendir ráðherra á að dómnefndin starfi eftir reglum sem byggðar séu á dómstólalögum frá 1998. Greinilegt sé að nefndin hafi misskilið hlutverk sitt og telji sig hafa vald sem hún hafi ekki. Vísar Árni til 7. greinar reglnanna þar sem segir : „Umsögn nefndarinnar er ekki bindandi við skipun í embætti héraðsdómara."

Árni neitar að tjá sig að öðru leyti

Fréttamaður Stöðvar 2 leitaði eftir viðtali við Árna vegna málsins en hann vildi ekki tjá sig um málið og vísaði aðeins á yfirlýsinguna.

Yfirlýsingu Árna Mathiesen og greinargerð dómnefndarinnar má sjá hér að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×